Sæbjörn stofnaði Stórsveit Reykjavíkur 17. febrúar 1992. Hvatinn að því var ekki að Sæbjörn hefði ekki nóg að gera, heldur að nokkuð margir af þeim ungu mönnum sem höfðu verið hjá honum bæði í námi og eða hljómsveitarflutningi í skólanum voru að koma hver af öðrum úr háskólanámi frá öðrum löndum og voru orðnir vel menntaðir og afburðagóðir hjóðfæraleikarar og leituðu að meiri fyllingu í sína atvinnumennsku. Þetta voru allt ungir menn sem voru úr djasshópnum.
Hvert leituðu þeir annað en til Sæbjörns því þeir vissu núna með sína reynslu hvað hann hafði kennt þeim og hvað það kom þeim vel þegar þeir tókust á við æðra nám erlendis. Þarna var samankomin góður hópur sem spurði Sæbjörn hvort hann vildi stofna Big Band og stjórna því. Sæbjörn fór að hugsa og sá fyrir sér mikla vinnu og margar hindranir framundan en varð jafnframt viss um að til er gott fólk sem mundi hjálpa honum. Þarna sá hann fyrir sér hljómsveit af þeirri gerð sem gæti verið komin til að vera. Nafnið á hljómsveitinni er bara íslenskað úr ameríska orðinu Big Band sem þýðir hvernig hljómsveit og hljóðfæraskipan er á ferðinni sem sagt sautján hljóðfæraleikarar og hljómsveitarstjóri. Hljómsveitin er skipuð eftirtöldum hljóðfærum, fimm saxar, tveir altósaxar, tveir tenorsaxar og einn baritonsax, fjórar básúnur þar af ein bassabásúna, fjórir trompetar, píanó, gítar, bassi og trommur. Það er engin stórsveit til sem er ekki skipuð þessum hljóðfærum eingöngu, þetta er einkenni stórsveitar, eins og kvintett er fimm manns saman og kvartett eru fjórir saman, þannig að kvartett getur ekki kallast kvintett. Það geta verið fullt af stórum hljómsveitum eins og sinfóníu-hljómsveitum, strengjasveitum, kammersveitum og lúðrasveitum en þær geta ekki kallast stórsveit né big band. Mér finnst fjölmiðlar vera farnir að fara frjálslega með þessa meiningu á orðinu Big Band. Stórsveit Reykjavíkur er orginal Big Band og verður aldrei neitt annað. Þá er ég búin að útskýra þetta og vona að fólk skilji þetta.
Já, Stórsveitin er komin til að vera og er í mikilli sveiflu enn í dag. Reykjavíkurborg tók hana uppá sína arma með fjárstuðningi en fékk frá Stórsveitinni tónleikaröð í staðinn sem eru góð skipti. Þó að ekki náist endar saman ennþá hvað reksturinn varðar, heldur þetta þó hljómsveitinni á lífi, allir félagar leggja sig fram við það. Starfsemin er talsvert mikil, Stórsveitin heldur sex tónleika á ári fyrir Ráðhúsið og nokkra tónleika sjálfstætt í öðrum tónleikasölum. Það er farið dálítið út á land, þar á meðal á djasshátíð Egilsstaða. Stórsveitin hefur tekið þátt í djasshátíð í Svíþjóð, nánar tiltekið í Sandvík í við frábærar undirtektir. Stórsveitin hefur gefið út tvo geisladiska, þann fyrri 1995 sem kom út í desember sama ár. Þessi diskur var blandaður með metnaðarfullum djasslögum og fallegum sönglögum en söngvarar voru Ellý Vilhjálms, Ragnar Bjarnason og Egill Ólafsson. Lögin voru öll sungin á ensku en við vorum með tvö íslensk lög eftir Stefán S. Stefánsson. Annað lagið var sungið á íslensku en hitt var útsett í djassformi fyrir bandið. Sæbjörn verður að láta það koma hér fram að Ellý söng tvö lög með Stórsveitinni á fyrri plötunni. Fyrra lagið „The more I see you“ en seinna lagið var „Almost like being in love.“
Þetta var hennar síðasta lag sem hún söng opinberlega hér hjá okkur, hún var orðin fárveik þegar hún söng þessi lög, en þetta vildi hún og þráði, enda tókst henni það röddin hljómaði fögur og örugg eins og ekkert væri að. Síðan hlustaði hún á upptökuna og sagði af sinni alkunnu hógværð:“ Ég held bara að þetta hafi tekist.“ Hún lést stuttu síðar áður en platan kom út. Blessuð sé minning hennar, þessarar miklu söngkonu.
Við gáfum út annan disk árið 2002 sem er gjörólíkur hinum fyrri því nú höfðum við hann alveg íslenskan, tókum sérstaklega fyrir Reykjavíkurlögin frægu sem við höfum heyrt í marga áratugi í hinum ýmsu búningum. Við fengum frábæran trompetleikara og útsetjara, Veigar Margeirsson, til að útsetja öll lögin á diskinn fyrir Stórsveitina því lögin hafa aldrei verið sett í þennan búning. Svo fengum við í lið með okkur sjö úrvals söngvara en þau eru Andrea Gylfadóttir – Kristjana Stefánsdóttir – Björgvin Halldórsson – Egill ólafsson – Páll Óskar Hjálmtýsson – Páll Rósinkranz og Ragnar Bjarnason.
Þessi lög hljóma vel í þessum nýja búning og ég held að þetta sé fagmannlega unnið og Stórsveitinni til sóma. Sæbjörn stjórnaði hljómsveitinni í upptökunum og vann að frágangi plötunnar en sú vinna tók alveg fram á vorið 2002 en þá hætti Sæbjörn sem stjórnandi vegna veikinda sinna en samt er Sæbjörn ennþá óbreyttur félagi, hættur að stjórna og spila, en hefur það starf að hafa umsjón og passa það nótnasafn sem hjómsveitin á. Einnig að hafa allt í röð og reglu og skrá þau í tölvu hvar þau eru staðsett í skápunum þegar þarf að nota þær á tónleikum og koma þeim fyrir aftur. Þessi lög eru nú komin á sjöunda hundraðið sem telst gott því í þessum nótum liggja hundruði þúsunda af peningum og utan um þetta þarf að halda af nákvæmni því ef eitthvað kæmi fyrir nótnasafnið er hljómsveitin stopp.
Flestir stjórnendur sem hingað hafa komið til að stjórna hafa verið svo elskulegir að gefa okkur þær nótur sem þau koma með frá sér sem þakklæti fyrir samvinnuna. Ég verð að segja frá einu sem hljómsveitin gerði vel. Þannig var að Sæbjörn og Ólafur Laufdal hittust einu sinni og hann spurði hvort hljómsveitin væri til í að halda skemmtun á Broadway. Sæbjörn fór strax í gang að athuga allar hliðar á þessu, fór að hugsa um hvernig þetta ætti að vera og gera áætlun um sýningar og æfingar og tíma sem þetta tæki.
Sæbjörn fékk fjóra söngvara í lið með Stórsveitinni en það voru þau Andrea Gylfadóttir – Ragnar Bjarnason – Páll Óskar og Bjarni Ara. Síðar þegar Bjarni þurfti að fara í frí fékk Sæbjörn Harold Burr, ljúfan mann og góðan söngvara til að koma inn í bandið fyrir Bjarna. Hann kom inn án æfinga á sýninguna, kunni öll þessi lög upp á tíu, enda hefur hann gífurlega reynslu þar sem hann söng í mörg ár með The Platters.
Allt tæknilið Broadway var til staðar og Björn Björnsson var fenginn til að hanna sviðið og setja upp söguþráð skemmtunarinnar. Í stuttu máli sagt tókst þetta mjög vel og móttökurnar eru eftirminnilegar. Sýningarnar urðu margar og vel sóttar og er þetta góð minning með hljómsveitinni og var henni virkilega til sóma.
Eftir að Sæbjörn hætti að stjórna hefur ekki verið fastur stjórnandi með Stórsveitina heldur hefur hljómsveitin fengið til sín gestastjórnendur erlendis frá með sín prógröm og hefur gengið nokkuð vel. Það hafa komið hingað frægir stjórnendur sem hafa veitt hljómsveitinni sjálfstraust og lærdóm. Ég ætla að telja upp nokkra þá frægustu sem koma frá Bandaríkjunum og Norðurlöndunum. Frank Foster tenórsaxleikari, hann spilaði með Count Basie bandinu, samdi og útsetti í áratugi fyrir það en þegar meistarinn Basie lést tók Frank við bandinu og stjórnaði því í mörg ár. Greg Hopkins, trompetleikari, einn af þeim bestu en hann spilaði fyrsta trompet sem ungur maður með hinu fræga Big – Bandi Buddy Rich.
Hann er prófessor við Berkley tónlistaháskólann í Boston. Það vill svo vel til að nokkrir félagar úr Stórveitinni hafa stundað nám við þennan skóla og þar af leiðandi þekktu þeir Greg vel þegar hann kom hingað fyrst. Hann var mikið undrandi yfir því að hér væri haldið úti svona frábæru bandi en hann hefur komið hingað oft og þykir frábært að vinna með svo góðu bandi. Ole Koch Hansen, píanistinn og stjórnandi Big Bandi danska Ríkisútvarpsins, María Schneider píanisti sem er með sitt eigið Big Band í New York og er með samning við Restaurant í New York þar sem bandið spilar vissan hluta úr ári en ferðast svo með bandið um allan heim þess á milli. Það var einmitt úr slíkri ferð til Evrópu sem hún kom sjálf hingað og stjórnaði Stórsveitinni með það prógram sem hennar band hafði spilað í þeirri ferð.
Tónleikarnir tókust mjög vel og var ekkert því til fyrirstöðu að spila þetta prógram sem er með því erfiðara sem svona hljómsveitir leggja í. María lék á alls oddi eftir tónleikana og sagði að það væri kraftaverk að svona góð hljómsveit væri til hér og hún ætti að vera fjármögnuð af ríki og borg.
Hingað kom líka söngkvartettinn New York Singers og söng með Stórsveitinni á djasshátið Reykjavíkur fyrir fullu húsi í Austurbæ við mikinn fögnuð áheyrenda. Margir fleiri frábærir stjórnendur hafa komið að hljómsveitinni en ég minnist ekki á fleiri hér. Auðvitað hafði Sæbjörn óskað sér þess að þetta tækist í upphafi og það hefur líka ræst. Allir þessu frábæru stjórnendur sem Sæbjörn taldi upp hér að framan ber öllum saman um, og við megum trúa því sem þau segja, að Stórsveitin er í hópi bestu hljómsveita sem þau hafa kynnst. Ég held bara að Sæbjörn geti verið stoltur af því að láta sér detta þetta í hug 1992 að stofna þessa hljómsveit og hella sér út í þessa miklu vinnu og mun hann aldrei sjá eftir því.
Á mörgum góðum tónleikum hefur Sæbjörn stjórnað þessari hljómsveit og margir góðir söngvarar hafa sungið með henni, of margir til að telja upp hér. Þó má ég til með að minnast á amerísku – dönsku söngkonuna og stuðboltann Ettu Cameron. Hún er mjög þekkt djass-og gospelsöngkona. Hún söng með Stórsveitinni tónleika á djasshátið Reykjavíkur og kom með sitt eigið prógram sem var ekki í léttara kantinum. Hún hafði ferðast með þetta prógram um heiminn og kunni það upp á tíu. Hún var á einni æfingu með okkur og fór ekki einu sinni yfir allt prógrammið heldur bara byrjanir á sumum lögum. Hún sagði að við þyrftum ekki meir, verið bara með einbeitinguna í lagi á tónleikunum, og höfum gaman að þessu. Hún lék á alls oddi á tónleikunum og lét orkuna streyma til okkar og áheyrenda og úr þessu urðu með betri tónleikum sem við höfum spilað. Við áttum aldrei að fá að hætta en Etta tók í hendina á mér, við veifuðum til áheyrenda og fórum baksviðs.
Ég ætla ekki að skrifa hér þá lofræðu sem hún hafði um stjórnandann og hljómsveitina eftir tónleikana. Hún er mjög einlæg kona og við verðum að trúa þessum orðum því ég sá hversu ánægð og kát hún var. Etta Cameron er yndisleg kona og mikil söngkona.
Nú á Sæbjörn bara eftir að segja frá lokatónleikunum með Stórsveitinni en þeir urðu á endanum þrír, af vissum ástæðum, og ekki komist hjá því. Enn einu sinni gripu félagar Sæbjörns inn í örlögin og gerðu þetta mögulegt. „Ákveðið var að síðustu opinberu tónleikarnir mínir væru fluttir í Ráðhúsinu.“ „ En viltu ekki fara á æskustöðvarnar fyrst, og halda tónleika þar?“ spurðu þau. Sæbjörn varð undrandi því til að gera þetta mögulegt þurfti allt þetta listafólk að taka sér frí frá sinni vinnu því laugardagur er aðalvinnudagur þessa fólks. „Þetta var látið takast og við fengum í lið með okkur fyrstu söngvarana sem sungu með Stórsveitinni þau Andreu Gylfa og Ragga Bjarna sem syngja enn með okkur.
Ákveðið var að spila tvenna tónleika, þá fyrri í Ólafsvík en þá seinni í Stykkishólmi. Einn laugardaginn fórum við til Ólafsvíkur þar sem ég eyddi fyrstu tveimur eða þremur árum ævi minnar. Þó ég muni nú ekki eftir því, svo ungur að árum, kom mér á óvart hve margir þar mundu eftir mér og höfðu fylgst með mér, litla stráknum sem átti heima á hótelinu sem faðir minn rak í nokkur ár. Þarna í salnum var fullorðin kona sem býr núna á elliheimilinu.
Hún kom að máli við þann sem sá um félagsstarfið á elliheimilinu fyrir tónleikana og sagði honum að hún hafði sem unglingur haft það starf að passa mig þann tíma sem ég átti heima þarna. Síðan hafði hún ekki séð mig nema á myndum í blöðum eða í sjónvarpi en núna eftir tónleikana vildi hún fá að hitta mig í eigin persónu því henni hefði alltaf þótt svo vænt um mig.“
„Hann sagði að þetta yrði ekkert mál, kom til mín og sagði mér þetta rétt áður en tónleikarnir hófust. Ég varð að hugsa hratt, hvað er hægt að gera fyrir þessa góðu konu og spurði fólkið sem sá un tónleikana hvot þau vissu hvort það væri eithvað lag sem henni þætti vænt um og svarið kom um hæl, það er ábyggilega lagið „Hvar ertu vina.“ Ég fór til Ragga og sagði „Kanntu textann við lagið „Hvar ertu vina sem varst mér svo kær“? „Nefndu það bara“ sagði Raggi og brosti. „ Þú syngur það þá á eftir“ sagði ég en hugsaði um það í leiðinni hver þessi kona væri. Ég hafði ekki séð hana nema með barnsaugum fyrir löngu en hugsaði, þetta bjargast eins og ævinlega.“ Síðan fór Sæbjörn inn á sviðið og byrjaði tónleikana. Það kom honum á óvart að það var fullt hús og góð stemmning enda ekki furða því hér var á ferðinni landslið hljóðfæraleikara með tvo af bestu söngvurum ásamt stjórnandanum sem var að kveðja hljómsveitina. Eftir hlé sagði Sæbjörn áheyrendum að í salnum væri kona sem hann vildi gjarnan koma pínulítið á óvart með því að flytja fyrir hana lag sem hún héldi mikið uppá. Ragnar myndi sjá um þetta ásamt strákunum á píanóinu, bassanum, gítarnum og trommunum. Þegar hann byrjaði fór Sæbjörn af sviði og í hléinu hafði starfsfólkið bjargað honum um eina rauða rós og sýndu honum hvar hún sat. Hann opnaði hliðarhurðina inn í salinn og gekk inn og sá konuna sem hann þekkti og mundi vel eftir, hún var alltaf svo góð við hann. „ Þegar ég fór til hennar með rósina sá ég konu sem geislaði af gleði, ég held að fleiri orð þurfi ekki um þessa gleðistund. Þessi kona hét Steinunn Þorsteinsdóttir og er nú látin, blessuð sé minning hennar.“
Tónleikarnir voru mjög góðir og skemmtilegir í alla staði. En nú var haldið til Stykkishólms þar þekkti Sæbjörn allt og alla og var viss um góða tónleika.Við vorum með góða efnisskrá nýttum okkar söngvarana vel og Sæbjörn fann að hljómsveitinni leið vel að vera þarna með honum á þessari gleðistundu. „Allir þessir vinir mínir voru með á því að þarna væri mikilvæg stund að renna upp.“ Sæbjörn ákvað það strax að skipta sér ekki af salnum fyrr en tónleikarnir hæfust og bað um að fá næði til að hvíla sig og fékk herbergi til afnota. Þarna sat Sæbjörn og fór að hugsa aftur í tímann. Hann stóð við gluggann og horfði út á Breiðafjörðinn og hugsanir hans komu hver af annarri upp í hugann. Þegar hann hitti Víking fyrst og fékk fyrsta trompetinn í hendurnar og fékk fyrsta tímann hjá honum í tónlist. Fór á fyrsta landsmót lúðrasveita í Reykjavík 1955 og á Akureyri 1957 og spilaði sóló með lúðrasveitinni „Lindina“ eftir Eyþór Stefánsson. Fór yfir það sem vinirnir í Egon gerðu á þeirra vinsældarárum. Þegar hann var beðinn um að spila við vígslu nýju kirkjunnar, bæði sóló, tvær sónötur eftir Telemann og með kórnum, meðal annars hallelújakórinn úr sálumessu eftir Hendel og honum leið mjög vel að spila við vígslu kirkjunnar á heimaslóðunumm, nema tónleikarnir á eftir skildu toppa það. „Á þessari stundu fann ég að ég var ekki einn, vinir mínir og faðir minn sem voru gengnir voru þarna hjá mér og ég fann hvernig kraftur minn jókst því nú var komið að því að hefja þessa örlagaríku tónleika.
„Ég gekk rólegur inn í salinn og sá að hann var sneisafullur eins og í hann var hægt að koma. Eftir innilegar móttökur frá áheyrendum hóf ég tónleikana sem ég hafði sniðið að því sem ég hélt að mundi falla að smekk áheyrenda. Það reyndist rétt hjá mér því oft fór kliður og klapp um salinn þegar við byrjuðum á mjög þekktum lögum sem fólk elskaði að heyra frá þessari frábæru hljómsveit. Strákarnir í hljómsveitinni tóku fast á þessu, spiluðu eins og englar, söngvararnir voru í banastuði og Raggi reytti brandarana af sér svo salurinn lá stundum í krampa. Ég fékk félaga mína úr Egon til að koma til mín á sviðið til að sýna Stórsveitinni vinsælustu hljómsveitina á Snæfellsnesi frá 1954 – 1959. Þetta var mjög skemmtilegt atriði og áríðandi því einn af okkar félögum lést af sínum veikindum stuttu síðar.“
„Ég á mjög bágt með að segja frá þessum tónleikum því mér fannst að ég ætti að vera þarna og spila eins mikið og fólkið vildi en allt í einu áttaði ég mig og sagði: „ Jæja elskurnar mínar nú látum við þessu lokið og höldum áfram að þykja vænt um hvort annað.“
Þá fannst Sæbirni eitthvað hverfa frá hlið sinni, og hann skynjaði hver það var. Þá tók við spjall við fólkið eins og tími vannst til. Síðan var brunað til Reykjavíkur og allir mjög ánægðir eftir mjög skemmtilegan dag. Þetta eru einir af tónleikunum sem Sæbjörn mun aldrei gleyma. Núna voru bara eftir þeir síðustu af opinberum tónleikum með Stórsveitinni og þeir voru haldnir í Ráðhúsinu, að sjálfsögðu, þar sem Sæbjörn hafði stjórnað þremur til fjórum tónleikum á ári í tæp tíu ár. Sæbjörn verður að viðurkenna að hann á erfitt með að lýsa þessum tónleikum enda veikindin farin að bitna á honum.
Sæbjörn má til með að minnast á það hér að á meðan hann var að fara í gegnum sín veikindi árin 1995 og 1996 en það gerðist skyndilega og var hann úr leik með alla vinnu. Vorum við nýbúnir að ganga frá plötu sem var nýkomin út og ákveðnir útgáfutónleikar í Borgarleikhúsinu eftir stuttan tíma þannig að einhver varð að taka við sem stjórnandi. Þetta þurfti að ákveðast fljótt og voru nú góð ráð dýr. Sæbjörn vill taka það fram að hann gerir ekki upp á milli sinna manna í Stórsveitinni því þeir eru allir frábærir hljómlistarmenn.
Samt varð að velja einn úr hópnum og fyrir hans vali varð Stefán S. Stefánsson saxófónleikari til að taka við stjórninni á tónleikunum í Borgarleihúsinu. Hann hafði samið og útsett mikið af tónlist fyrir Stórsveit og tvö lög hans voru á plötunni sem við vorum að gefa út og útgáfutónleikarnir voru eftir stuttan tíma til að kynna plötuna. Tónleikarnir voru frábærir og vill Sæbjörn þakka Stefáni fyrir frábæra og faglega vinnu. Siðan stjórnaði hann í Salnum í Kópavogi tónleikum með sínum eigin verkum sem tókust mjög vel. Þá stjórnaði hann tónleikum í Loftkastalanum sem kallaðir voru af einum gagnrýnanda villikettir í loftköstum enda voru þetta fjörugir tónleikar og mjög skemmtilegir með fjórum af okkar bestu söngkonum en þær voru Andrea Gylfa – Ellen Kristjáns – Berglind Jónasar og Edda Borg. Þetta voru feiknagóðir tónleikar enda góðir listamenn á ferðinni.
Sæbjörn vill hér þakka Stefáni fyrir frábært starf og hjálp á þessum erfiða tíma. Það má taka það fram hér að Stefán er einn af stofnendum Sveitarinnar og starfar í henni enn ásamt fleiri félögum sem eru stofnendur. Í myndasafni og úrklippusafni má sjá mörg atvik frá þessum tíma Stefáns með sveitinni.
Það er ansi mikill ábyrgðarhlutur að ganga inn á svið sem hljómsveitarstjóri og standa fyrir framan svona professional hljómsveit eins og Sórsveitin er. Þetta voru allir af bestu vinum mínum sem ég hafði starfað með í svo langan tíma. Auðvitað voru þau Andrea og Ragnar með okkur og sungu bestu lögin sem þau hafa sungið með hljómsveitinni. Svo Sæbjörn gat sagt þarna var Stórsveitin komin saman í öllu sínu veldi og þegar hann leit yfir hópinn gat hann sagt og fylltist miklu stolti yfir því sem tekist hafði. Sæbjörn var búin með æfingarnar, allt var orðið klárt og þeirra í bandinu að takast á við að flytja tónlistina og ekki mátti bregðast í stjórnun. Sæbjörn fann á þessu augnabliki sem hann stóð þarna að nú væri þessu ævintýri að ljúka hjá honum en hann var viss um að Stórsveitin héldi áfram að vaxa og dafna í sínum flutningi á stórsveitardjass sem hún hefur gert. Sæbjörn fann þarna að hann var mjög sáttur og þótti óskaplega vænt um þennan hóp vina sinna sem voru þarna með honum.
Sæbirni tókst að klára sitt hlutverk þarna fyrir sneisafullum sal áheyrenda, og tónleikunum var feikna vel tekið. Það má segja að við máttum ekki hætta en öllu lýkur á endanum. Honum leið mjög vel innra með sér og vissi að þarna væri rétt að ljúka opinberlegu tónleikahaldi hans sem hljómsveitarstjóra enda mátturinn farinn að þverra ansi mikið vegna veikinda hans. Að vísu átti Sæbjörn eftir að klára upptökur af seinni plötunni með söngvurunum og hljóðblöndun og halda eina útgáfutónleika. Þetta teygðist fram á sumarið 2002 en þá var hans verki lokið sem hljómsveitarstjóra. Nú er Sæbjörn bara óbreyttur félagi en er ánægður og glaður að löngu dagsverki loknu. Núna sér hann um nótnasafnið og uni sér vel við það.
Lýkur þessum kafla hér hjá Sæbirni.