Sæbjörn lék á sínum fyrstu tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 1963 og var fastráðinn við hljómsveitina 1969.  Hann lét af störfum  árið 1998 eftir erfið veikindi.

Vinirnir þrír í trompetdeildinni

Vinirnir þrír í trompetdeildinni.
Frá vinstri: Sæbjörn, Jón og Lárus.

Þeir voru þrír vinirnir í trompetdeildinni mestallan tímann.  Lárus Sveinsson, Jón Sigurðsson, Sæbjörn Jónsson og síðustu árin Ásgeir Steingrímsson.  Ásgeir er fyrsti trompetleikari Sinfóníunnar núna og með honum Eiríkur Örn Pálsson, Einar St. Jónsson og Guðmundur Hafsteinsson.  Sæbjörn er mjög stoltur af því að Einar og Guðmundur eru báðir nemendur hans frá fyrstu tíð og komu til hans þegar þeir voru um níu ára gamlir.  Þeir voru í námi hjá Sæbirni í sex eða átta ár og fóru báðir svo í Tónlistarskóla Reykjavíkur og þaðan í háskólanám erlendis. Þeir eru nú orðnir fastráðnir trompetleikarar í Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Guðmundur Hafsteinsson og Einar Jónsson trompetleikarar

Guðmundur Hafsteinsson og Einar Jónsson trompetleikarar

“Lengi býr að fyrstu gerð” sagði Sæbjörn oft og var ánægður yfir því að hafa fengið að opna fyrir þessum efnilegu drengjum dyrnar inn í tónlistarheiminn.  Hann tók skýrt fram að enginn kemst þessa leið nema að eigin verðleikum sama hversu kennararnir eru góðir. En hann var að vonum stoltur yfir því að þeir skyldu feta í fótspor þess gamla gráhærða.

Hér er stiklað á stóru á löngum starfsferli Sæbjörns en vinirnir þrír úr trompetdeildinni fóru í gegnum marga erfiða hluti á þessum tímum og komu bara nokkuð vel út úr því.  Þeir spiluðu inn á margar plötur með Sinfóníunni á vegum erlendra útgefanda sem komu út hérlendis og víða erlendis og hafa fengið mjög góða dóma. Þeir léku allskonar stórverk í Þjóðleikhúsinu og Óperunni með stóru kórunum. Við allar stórhátíðir sem haldnar hafa verið á Þingvöllum þegar konungar eða drottningar komu í opinberar heimsóknir voru trompetleikarnir beðnir að  mæta í veislurnar og spila ákveðna  Fanfare á undan ræðum þeirra í veislum hjá forseta Íslands. Þetta voru hátíðlegar og skemmtilegar stundir fyrir þá.

Tveir trompetleikarar, alveg eins

Sinfóníuhljómsveitin fór margar ferðir um allt land og spilaði þar fyrir þakkláta áheyrendur. Utanlandsferðir urðu allmargar og halda vonandi áfram að vera margar.  Sinfóníuhljómsveitin fór til Norðurlandanna, Færeyja og Grænlands og suður í Evrópu til Þýskalands,  Austurríkis og Frakklands.  Hljómsveitin fór síðan sérstaka ferð til Munchen í Þýskalandi á vegum Efnahagsbandalagsins sem Sæbjörn hafði mjög gaman af.  Þar hittu þau fyrir Fílharmoníusveit Tékklands og Sinfóníuhljómsveit Ríkisútvarpsins í Helsinki. Sæbjörn sagði það hafa verið mjög lærdómsríkt og skemmtilegt að hitta og kynnast  trompetleikurum þessara hljómsveita og ræða við þá um starf þeirra allra og laun og kjör hljómsveitarstjóra sem þeir þekktu sameiginlega.

Það vildi svo til að þeir léku allir á sömu tegund hljóðfæra. Eftir nokkrar samræður komust þeir að því að einn trompetleikarinn úr finnsku hljómsveitinni átti ýmislegt sameiginlegt með Sæbirni. Þeir voru nákvæmlega jafn gamlir, báðir fæddir 19. október 1938. Þeir spiluðu báðir fyrstu tónleika sína með Sinfóníu árið 1963, giftu sig sama dag  og áttu báðir fjögur börn.  Skemmtileg tilviljun.  Finninn ljóstraði því upp að hann tæki alltaf pínulítinn part af fósturjörðinni með sér í ferðalög og í tilefni allra þessa tilviljana dró hann upp úr vasa sínum pela af Finnlandia vodka og bauð þeim að smakka á fósturjörðinni. Þeir hlógu lengi og innilega af þessari uppákomu og fengu sér meira af vodka.

Hljómsveitarstjóri í Gæjum og Píum ( Guys and Dolls )

Benedikt Árnason sem hefur sett upp flesta söngleiki á Íslandi hringdi í Sæbjörn og spurði hann hreint út:  “Viltu koma og stjórna söngleikjum í Þjóðleikhúsinu fyrir mig?  Þetta mun falla saman við þína vinnu eins og að spila þar”. Sæbjörn varð orðlaus í smá tíma en sagði svo; “Treystirðu mér til þess?”… Benedikt svaraði ósköp rólegur… “Heldur þú að ég sé ekki búinn að athuga málið? Þú ert rétti maðurinn í þetta, ég er viss”. Þá svaraði Sæbjörn “En ég er að spila núna í einum söngleik  hjá þér, Gæjar og Píur undir stjórn hljómsveitarstjóra frá Englandi að nafni David sem útsetti tónlistina í stykkinu”.  “Alveg rétt“ svaraði Benedikt og hélt áfram “David er nefnilega að fara heim og það þarf að skipta um stjórnanda og trompetleikara. David er meira að segja búinn að benda á þig sem hljómsveitarstjóra, hann er búinn að kynnast ykkur öllum”.

“Verð ég þá að taka við beint á sýningu?” spurði Sæbjörn og Benedikt svaraði um hæl “Já, en David mun fara yfir partitúrinn með þér og hvað þú þarft að varast á sýningunni”. Sæbjörn hafði aldrei séð sýninguna  því að þeir sem spila í gryfjunni sjá ekki upp á sviðið en tónlistina kunni Sæbjörn mjög vel, því að hann hafði spilað 10-15 sýningar undir stjórn David. Daginn eftir,  á mánudegi hitti Sæbjörn David og hann sagði við Sæbjörn “Þú tekur við á miðvikudaginn,  ég fer á fimmtudaginn til Englands en verð hjá þér á miðvikudaginn, við förum yfir allt stykkið” og David benti Sæbirni á  ýmsa staði sem þyrfti að varast sem nauðsynlegt var að kunna skil á. Svo sagði David að þeir væru svolítið hrekkjóttir þarna uppi á sviði, „ En þú þekkir þá“ sagði David við Sæbjörn.

Fyrsta sýningin

Það var komið að sýningu, allt tilbúið á sviði og í hljómsveit og Sæbjörn beið eftir grænu ljósi frá sýningarstjóra. Þá kom Benedikt í hendingskasti tók utan um Sæbjörn og sagði: ”Sýndu nú öllum hvað í þér býr og við sláum í gegn”.  Svo var hann þotinn fram í sal. Í sama mund kviknaði græna ljósið og Sæbjörn gekk inn á hljómsveitarpallinn.  Nú var ekki aftur snúið.  Sæbjörn sá David smeygja sér inn og setjast við hliðina á honum við pallinn en í hvarfi við salinn. Sýningin hófst og Sæbjörn féll alveg í sitt hlutverk sem hljómsveitarstjóri og gaf allt frá sér sem hann gat í sýninguna.  Þegar komið var fram undir hlé tók Sæbjörn eftir því að David var farinn og hugsaði þá að hann hefði ekki miklar áhyggjur af þessu. Þegar komið var að hléi og Sæbjörn kom upp, var David fyrsti maðurinn sem hann sá. Hann sagði:  „Þú gerir þetta betur en ég  svo nú ert þú tekinn við af mér”.

Í stuttu máli, sýningin tókst frábærlega vel og eftir að henni lauk var Sæbjörn bókstaflega að drukkna í árnaðaróskum frá kollegum sínum bæði í hljómsveit og á sviði. Þessi sýning átti eftir að vaxa mjög og slaknaði hvergi en sýningarnar urðu á milli 80 og 90 talsins.

Les Misérables

Benedikt bað Sæbjörn einnig um að stjórna söngleiknum „Les Misérables“ sem heitir á íslensku „Vesalingarnir“ eftir Victor Hugo. Höfundar eru Alain Boublil og Claude-Michel Schönberg og tónlistin eftir Herbert Kretsmer. Hljómsveitarútsetning er eftir John Cameron og Ísland var þriðja landið sem frumflutti þennan söngleik. Þetta er gífurlega umfangs mikið verk og flókið,  bæði í uppsetningu og flutningi og undirbúningur sýningarinnar stóð í átta mánuði. Það var stór hljómsveit og mikið af leikurum , söngvurum og dönsurum á sviði.

Sýningin Les Misérables - Vesalingarnir

Aðalleikarinn Egill Ólafsson

Verkið var allt flutt með söng og tók flutningur  tónlistar tvær klukkustundir og fimmtán mínútur.  Á sviðinu voru allir færustu leikarar landsins. Í aðalhlutverki var Egill Ólafsson sem var Sæbirni vel kunnugur.  Sæbjörn hreifst af orkunni í Agli og fannst hann mikill afburðarmaður.  Þeir höfðu  unnið mikið saman með Stórsveitinni en Egill söng á báðum plötunum og á mörgum tónleikum. Egill hafði það stórt hlutverk í Þjóðleikhúsinu að í  85% af flutningnum var hann á sviðinu.  Sambandið á milli hans og Sæbjörns var mjög náið og þeim tókst með góðri samvinnu við hinn stóra hóp sem stóð að sýningunni að gera þessa sýningu að einni þeirri bestu sem uppfærð hefur verið í Þjóðleikhúsinu.

Þegar Sæbjörn stóð til hliðar við hljómsveitina og horfið á hljómsveitarpallinn streymdi í gegnum hann mögnuð tilfinning.  Hann var í þann mund að fara að takast á við eitt stærsta hlutverk sem hann hafði nokkru sinni tekist á við og hefja frumsýninguna. Þar sem hann beið eftir græna ljósinu, allir tilbúnir á sviði og í hljómsveit, þá fann hann í annað sinn á sinni ævi að hann var ekki einn. Hann  fann orkuna streyma til sín og vissi hver þar átti í hlut. Hann  fylltist mikilli ró,  kvíðinn hvarf  þegar græna ljósið kviknaði.  Sæbjörn gekk inn undir lófataki frá salnum sem var fullsetinn og fylltist þakklæti til þess sem honum fylgdi og veitti honum þessa orku á örlagaríku augnabliki.

Sýningarnar urðu eitthvað um níutíu talsins og var hætt fyrir fullu húsi áheyrenda.  Þetta var árið 1988 og Sæbjörn þá að vinna á nokkrum stöðum. Í Sinfóníunni,  skólanum, Svaninum  og með Stórsveitinni. Á þessum tímapunkti dró Sæbjörn allverulega úr vinnu sinni þar sem hann fann að orkan var að minnka og tími til að hægja aðeins á.

Vart hugað líf

Sæbjörn Jónsson - Stórsveit Rvk - RáðhúsinuSæbjörn veiktist mjög alvarlega í nóvember  1995 og var vart hugað líf. Hann var með annan fótinn inni á spítala í ein þrjú ár og náði sér aldrei aftur. Hann varð að hætta allri vinnu en sá um nótnasafn Stórsveitarinnar.  Með þeirri vinnu var hann í góðu sambandi við strákana sem gladdi hann mjög.

Sæbjörn var mjög þakklátur fyrir ævistarf sitt og þótti afskaplega vænt um sitt samferðarfólk, nemendur og samstarfsmenn. Hann talaði sérstaklega um það hlýja viðmót sem honum var sýnt fram á síðasta dag og yljaði hans veikburða hjarta.