Svanurinn, unglingadeild-, Big band svansins og Tónmenntaskólinn

Lúðrasveitin Svanur var stofnaður 16. nóvember 1930 og hefur starfað óslitið síðan. Sæbjörn skráði sig í Svaninn haustið 1960 og starfaði með honum í tuttugu og tvö eða þrjú ár. Allt þetta tímabil sem Sæbjörn fjallar um, fléttast allir þessir hlutir saman sem hann fjallar um hér á eftir, því Sæbjörn vann þetta allt saman með hvort öðru. Árið 1960 til 1964 stundaði Sæbjörn nám við Tónlistaskólann í Reykjavík. Sæbjörn stundaði nám hjá Jóni Sigurðssyni trompetleikara sem starfaði  þá hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands sem trompetleikari. Leiðir  Jóns og Sæbjörns áttu eftir að liggja saman í þrjátíu og fimm ár. Eftir námið fór Sæbjörn að líta eftir vinnu í dansmúsík en var nú ekki mikið að gera.

Sæbjörn fékk vinnu hjá hljómsveit  Ragnars Bjarnasonar á Hótel Sögu, Súlnasal, sem  var vinsælasta danshús Reykjavíkur um þær mundir.  Svo gerðist það að hljómsveit Ragnars fór í frí í eitt sumar  og þá tók Haukur Mortens við og bauð hann Sæbirni vinnu í sinni hljómsveit  og spiluðu þeir á Sögu þangað til Ragnar kom aftur, en þá flutti Haukur sig í Glæsibæ. Í báðum þessum hljómsveitum var gott að vera  og þarna fékk Sæbjörn góða reynslu.  Árið 1987 fór  hljómsveit Hauks til Kaupmannahafnar og spilaði eitt sumar á stað sem heitir Vín og Ölgod.  Sæbjörn man vel að þar þótti hljómsveitin mjög góð og vakti mikla athygli dana. Enda verður  að segja að þessi hljómsveit æfði og undirbjó vel þetta prógram sem þeir voru með og úrvals hljóðfæraleikararar í hverju sæti.  Þetta var sextett og Haukur frábær söngvari eins og allir vita. „Þetta var skemmtilegt tímabil“ segir Sæbjörn.

En þetta var smá krókur og aftur að Svaninum.  Árið 1960 þegar Sæbjörn gekk í Svaninn var  Jón G. Þórarinssson stjórnandi en þá var Karl O. Runólfsson stjórnandi og heiðursfélagi nýlega hættur. 1962 kom Svanurinn sér upp búningum sem eru einkenni Svansins enn í dag.  Þetta eru fallegir búningar, bláir að lit og fyrirmyndin frá Ameríku , en allir saumaðir hér.  Árið 1963, um vorið, urðu þáttaskil hjá Svaninum.  Jón G. Þórarinsson lét af störfum  en um haustið tók Jón Sigurðsson trompetleikari við,  þannig hélst samstarf Sæbjörns og Jóns Sigurðssonar áfram. Hann var stjórnandi Svansins næstu tíu árin en Sæbjörn spilaði fyrsta trompet með Svaninum alla þá tíð.

 

Jón Sigurðsson stjórnar tónleikum Svansins í Austurbæjarbíó

Jón Sigurðsson stjórnar tónleikum Svansins í Austurbæjarbíó

Smá krókur aftur: Fyrstu tónleika með Sinfóníunni spilaði Sæbjörn 1963, um haustið, þá sem nemandi Jóns  á tónleikum með Róbert Abraham Ottósyni og Fílharmoníukórnum. Flutt voru verkin Magnificat eftir Bach og Sálmasinfónían eftir Stravinski. Það var mjög ánægður ungur maður eftir tónleikana þegar Róbert kom til hans og sagði: „ Þetta var gott hjá þér, ég vona að við eigum eftir að vinna meira saman“.  Og það varð raunin. Sæbjörn átti eftir að flytja mjög  mörg af stærstu tónverkum bókmenntana með honum. Sæbjörn vill taka það fram hér, því það passar vel við þennan þátt,  að kona hans, Valgerður Valtýsdóttir, söng hjá Róbert í Fílharmoníunni í ellefu ár svo þau voru saman á sviðinu í öllum þessum stóru verkum. Sæbjörn kemur betur að þessu seinna.

En aftur að Svaninum. Um vorið 1973 lét Jón Sigurðsson af störfum en þá vorum þeir búnir að halda tónleika ár hvert , fyrst í Austurbæ og síðan í Háskólabíó.  Svanurinn var orðinn það fjölmennur  að hann komst ekki fyrir á sviðinu í Austurbæ. Það má með sanni segja að öll þau ár sem Jón Sigurðsson var með Svaninn hafi hann dafnað og stækkað og var farinn að takast á við stærri verk sem reyndu meir á félaga Svansins.  Enda komu alltaf fleiri þaulvanir menn og konur í Svaninn svo þetta var orðin mjög öflug sveit.

Svanurinn spilar inn á fyrstu innlendu steríóplötuna

Sæbjörn minnir að það hafi verið árið 1970 á fjörutíu ára afmæli Svansins sem þeir spiluðu inn á  fyrstu innlendu steríóplötuna á Íslandi.  Fálkinn gaf hana út  en um upptökuna sá hinn snjalli Pétur Steingrímsson. Þetta var fjögurra laga plata og vakti mikla athygli  og þrátt fyrir þær frumstæðu aðstæður sem platan var tekin upp við er útkoman merkilega góð, allavega er spilamennskan bara nokkuð góð. Þetta voru eitt af þeim góðu og mörgum hlutum sem Jón Sigurðsson gerði fyrir Svaninn. En nú voru aftur þáttaskil hjá Svaninum þegar Jón lét af störfum 1973 og nú vantaði  stjórnanda. Sæbjörn var þá búin að læra dálítið í hljómsveitarstjórn og leysti  Jón stundum af á æfingum.  Það varð úr að félagarnir báðu Sæbjörn að taka við hljómsveitarstjórn Svansins. Sæbjörn varð við þessari ósk og byrjaði að undirbúa fyrir haustið starfsárið næsta. Við höfðum undanfarin ár alltaf farið í eina upptöku í sjónvarp á ári og tvær upptökur í útvarp ásamt þessum árlegu aðaltónleikum í Háskólabíó. Sæbirni datt í  hug að láta  taka beina upptöku frá tónleikunum  og fékk það samþykkt frá tónlistastjóra Útvarpsins.

Þetta tókst vel og varð fastur liður eftir þessa tónleika. Sæbjörn ákvað þegar hann tók við hljómsveitarstjórn Svansins að una sér ekki hvíldar fyrr en Svanurinn væri kominn upp að hlið þeirra bestu lúðrasveita sem væru til í nágrannalöndum okkar og auka þannig við menningu okkar lands. Þetta tók ansi mikið á enda starfaði Sæbjörn í Svaninum í tuttugu og tvö  eða þrjú ár og hann heldur að hann hafi komist ansi nálægt þessu takmarki, að sjálfsögðu með hjálp góðra félaga sinna í Svaninum. Fyrst var að koma peningamálum í viðunandi  ástand og varð þá að takast á við ríki og borg sem tókst nokkuð vel.  Sæbjörn getur ekki sagt nema brot af því öllu sem félagarnir í Svaninum aðhöfðust og afrekuðu öll þessi ár sem Sæbjörn var í Svaninum og mun því taka bara það helsta og markverðasta sem Sæbjörn vann með Svaninum.

Vinna í Tónmenntaskóla Reykjavíkur fléttast óneitanlega mikið saman með Svaninum  því stuttu eftir að Sæbjörn tók við Svaninum bauðst honum föst staða við Tónmenntaskólanum, við að kenna og stjórna brassdeildinni. Við þessa stækkun  skólans almennt þurfti stærra húsnæði sem skólinn fékk við Lindargötuna.

Sæbjörn er hér ásamt eldri deild lúðrasveitar  Tónmenntaskólans

Sæbjörn er hér ásamt eldri deild lúðrasveitar Tónmenntaskólans

Sæbjörn, ásamt formanni Svansins á þeim tíma, og öðru duglegu fólki sáu færi á að koma Svaninum inn í Tónmenntaskólann og leysa þar með vandann með æfingahúsnæði til frambúðar.  Svanurinn hafði ekki haft fast æfingahúsnæði frá 1930. Þarna var gerður samningur við borgina ásamt skólanum til frambúðar og stjórn Svansins stóð sig frábærlega .

Allir nemendur Sæbjörns fóru í Svaninn, það lá beint við. Þetta nægði honum ekki, Sæbjörn vildi meiri uppgang og tók til þess ráðs að stofna unglingasveit Svansins með unglingum sem komu frá skólahljómsveitum Reykjavíkurborgar, Kópavogs, Garðabæ, Hafnarfirði og Mosfellsbæ. Þetta var gert með góðri samvinnu þeirra  stjórnanda sem unnu með  þessum hljómsveitum.

Sæbjörn Jónsson með nýstofnaða Unglingadeild Svansins

Sæbjörn Jónsson með nýstofnaða Unglingadeild Svansins

Svanurinn stofnaði nokkurs konar skóla utan um þetta  því það voru margir hljómlistarmenn ásamt Sæbirni, sem spiluðu í Svaninum og voru fastráðnir í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þeir kenndu unga fólkinu  á hljóðfærin og tónfræði og svo var Sæbjörn með samspil og kenndi þeim hljómsveitarflutning.  Þetta var orðin þéttskipuð lúðrasveit með um fimmtíu félaga. Einnig voru þarna nemendur frá Tónmenntaskólanum sem höfðu mikinn áhuga á þessari tónlist og voru búnir að klára Tónmenntaskólann. Þarna var Sæbjörn kominn það langt með brassdeild Tónmenntaskólans sem búin var að starfa í nokkur ár en deildin  var eingöngu miðuð við grunnskólaaldur. Sæbjörn var þarna búin að stofna lúðrasveit við skólann, sem seinna urðu alls þrjár,  svo unglingasveit Svansins var framhald fyrir þau.  Þessa unglingadeild  var Sæbjörn með í námi og þjálfun í fjögur ár og var hún orðin glettilega góð,  en upptökurnar sem  gerðar voru fyrir Útvarpið sanna það. Hún kom tvisvar  fram á tónleikum Svansins í Háskólabíó og  þar fundu áheyrendur sama kraftinn og nákvæmnina og í Svaninum.  Þetta lofaði mjög góðu þegar þessi hópur sameinaðist Svaninum á 50 ára afmælinu.

En áður en það varð fór þessi sveit í ferðalag til Danmerkur, nánar tiltekið í lúðrasveitarkeppni sem haldin var í Kaupmannahöfn á vegum „Youth People to People.“ Þetta voru fjórtán konsertsveitir sem kepptu  og sett upp þannig að þær gætu marserað líka. En íslendingar vissu ekki um marseringuna svo að Sæbjörn fór í það að kenna þeim að marsera.  Það gekk bara vel, betur en Sæbjörn þorði að vona. Þá kom líka vel fram hvað þau treystu Sæbirni og fóru vel eftir því sem hann sagði. Þau gerðu sér grein fyrir því hvað í húfi var.

Keppnin fór fram í Tree Falkon Center sem var stórt leikhús og tók rúmlega tvö þúsund manns í sæti. Hvert sæti skipað, sem sagt fullt hús. Þrjár sveitir spiluðu á eftir hvor annarri, fimm sátu í dómnefndinni og sat dómnefndin í stúku beint fyrir framan hljómsveitirnar svo ekki var um villst hverjir voru þar. Hljómsveitin sem spilaði næst á undan Unglingadeildinni var áttatíu manna sveit frá tónlistarháskóla í Winnipeg, Kanada og  voru þau  flest eldri en félagarnir í Unglingadeildinni. Þetta reyndist svo vera vinningssveitin. Hver sveit átti að skila efnisskrá í tuttugu mínútur og meðan þessi sveit spilaði vorum við baksviðs og gátum hlustað á sveitina spila. Sæbirni var litið á hópinn sinn og sá ansi föl andlit sem leist ekki á blikuna og heyrði einn félagann segja; “Eigum við svo að spila á eftir þessum?“  Þá vissi Sæbjörn virkilega hvað það er að vera í forystuhlutverki á örlagastundu.  Það var þögn í  hópnum og það hvarlaði að Sæbirni í eitt augnablik að þau væru að guggna svo nú væri komið það augnablik að standa sig og bregðast ekki.  Sæbjörn stóð upp og stóð fyrir framan þau eins og hann hafði gert í fjögur ár og sagði: „Ég treysti ykkur og bregst ykkur ekki. Nú förum við inn á sviðið og spilum þessa efnisskrá og þið munið hvað sagt hefur verið við ykkur. Við tökum öll á þessu sameiginlega með einlægni og gleði og munið, tónlistin kemur frá hjartanu.“Sæbjörn var viss að þetta mundi ganga mjög vel. Hann hefur aldrei heyrt sveitina spila eins vel og þarna á sviðinu fyrir framan allt þetta fólk og dómnefndina. Það var stoltur hópur sem yfirgaf sviðið undir dynjandi lófataki  áheyranda.

Unglingadeild Svansins

Unglingadeild Svansins með tónleika í Danmerkuferðinni

Unglingadeild Svansins fékk að vita með dagskránni daginn eftir að þeim hafi verið  falið að marsera niður Strikið í miðborg Kaupmannahafnar og enda með tónleikum á Ráðhústorginu. Þá var eins gott að þau höfðu æft vel að marsera og þau fengu líka að vita eftir það hvort þau hefðu  orðið ein af fyrstu sex sveitunum í keppninni af þessum fjórtán sem kepptu.  Fyrstu sex ættu að spila hvorki meira né minna en í konsertsalnum í Tívolí til úrslita  og marsera á lokaathöfninni sem var haldin á risastórum íþróttavelli. Þau voru líka beðin um að halda tónleika í Dyrehavsbakken, sem var mjög skemmtilegt,  enda fengu þau að skemmta sér þar í nokkra tíma.

Það er skemmst frá því að að segja að eftir að þau höfðu marserað niður Strikið og spilað stuttan konsert á Ráðhústorginu við mikinn fögnuð áheyrenda var þeim tilkynnt að þau höfðu lent í efstu sex sætunum af sveitunum svo þau myndu spila til úrslita í konsertsalnum í Tívolí. Og á lokahófinu ættu þau að spila og marsera og tvær sveitir myndu marsera á eftir þeim undir spilamennsku unglingadeildar  Svansins.

Unglingadeild Svansins

Tónleikar á Ráhústorginu

 

Unglingadeild Svansins

Marserað niður Strikið

 

Tónleikarnir í Tívolísalnum verða öllum ógleymanlegir. Nú var  hópurinn komin með sjálfstraust og reynslu, tónleikarnir gengu betur en ég þorði að vona, og lítill munur var á sveitunum.  Þetta  tókst allt vel og á lokahófinu var tilkynnt um úrslitin í keppninni og þar lentum þau í fjórða sæti af fjórtán sveitum víða að úr heiminum. Eftir þessa ferð sameinaðist unglingasveitin Svaninum og næsta verkefni hjá Svaninum var fimmtíu ára afmæliskonsert í Háskólabíó, með sameinuðum sveitunum undir merki Svansins á afmælisdaginn 16. nóvember 1980. Þeir tónleikar voru alveg frábærir og þar sannaði Svanurinn að hann var kominn í hóp bestu sveita sem voru í nágrannalöndum okkar. Við fórum í það að gefa út tólf laga hljómplötu með lögum eftir Árna Björnsson tónskáld sem var mikill áhugamaður um lúðrasveitir og samdi sérstaklega fyrir þær.

Einnig samdi hann tónverk  fyrir Sinfóníuhljómsveitina,  sönglög og danslög. Þessi upptaka og frágangur plötunnar var mikil vinna en skemmtileg.  Platan var tekin upp í Hljóðrita með bestu upptökutækjum sem til voru þá og upptökustjóri var Gunnar Smári.  Öðrum megin á plötunni voru frægustu marsar Árna en hinumegin danslög eftir Árna.  Þá kemur að einum þættinum í viðbót hjá Svaninum. Sæbjörn var búinn að stofna Big Band Svansins, allt félagar úr Svaninum, sem var skemmtileg viðbót í starfinu. Í Big Bandinu spilaði Sæbjörn fyrsta trompet og stjórnaði líka.

Big Band Svansins á leið í spilamennsku í Þórscafé

Hljómsveitin spilaði víða og kom skemmtilega á óvart og kom einnig fram á tónleikum með Svaninum. Það lá því  beint við að spila danslög Árna á síðu B á plötunni með Big Bandinu.  Þessi lög varð að útsetja sérstaklega því í bandinu voru sautján manns,  fimm saxar, fjórar básúnur, fjórir trompetar, píanó,  gítar, bassi og trommur. Við fengum Eyþór Þorláksson gítarleikara til að gera þær útsetningar og hann spilaði einnig í bandinu, sá eini sem ekki var í Svaninum.  Þetta leysti hann af mikilli snilld enda útkoman á plötunni til mikils sóma fyrir Svaninn. Svo fórum við í skemmtilega ferð til Noregs árið  eftir og gerðum ýmislegt,  meðal annars marseruðum við niður Karl Johann strætið og héldum konsert í miðborg Oslóar á sérstökum konsertpalli.  Einnig fórum við í upptöku í Norska Ríkisútvarpið. Við ferðuðumst talsvert um landið og héldum tónleika á mörgum stöðum. Samferða okkur var Lúðrasveit Stykkishólms, einmitt úr mínum heimabæ og okkar leiðir lágu talsvert saman,  sérstaklega í Osló, því við bjuggum þar á sama stað. Þetta var mjög skemmtileg ferð í alla staði og er mjög ofarlega í minningunni. Eins og Sæbjörn sagði áður þá stofnaði hann þrjár hljómsveitir við Tónmenntaskólann. Eldri og yngri deild í lúðrasveit og eina léttsveit ( Big band ) sem Sæbjörn kaus að kalla.  Þau voru svo ung þó að þetta væru elstu nemendurnir og þar að auki eina starfandi skóla Big Bandið á Íslandi á þessum tíma. Þessi hljómsveit vann saman í sex ár og var orðin mjög góð hljómsveit og margir af félögunum komnir  í Tónlistaskóla F.Í.H. og Tónlistarskóla Reykjavíkur í framhaldsnám. Þessi hópur varð síðar grunnur að alvöruhljómsveit sem er orðin atvinnuhljómsveit í dag en það er Stórsveit Reykjavíkur og mun Sæbjörn gera grein fyrir henni sér.

Þegar Sæbjörn horfir til baka á þetta tímabil sjá allir að ekki var mikill tími afgangs fyrir Sæbjörn með fjölskyldu sinni.  Hann var á þessum árum í Sinfóníunni, Tónmenntaskólanum, með Svaninn og allt sem honum fylgdi,  spilaði og stjórnaði í Þjóðleikhúsinu og spilaði í Óperunni , ásamt  að taka þátt í uppfærslum stóru kóranna á stærstu verkefnum Tónbókmenntanna og margt annað sem féll til. Sæbjörn veit ekki enn hvernig hann gat púslað þessu saman, sér ekki eftir neinu og er glaður með það starf sem hann hefur  skilað frá sér  fram að þessu. Sæbjörn má til með að bæta því við hér að það eru fjórir heiðursfélagar Svansins í dag.  Gísli Ferdinandsson flautuleikari, Eysteinn Guðmundsson trompetleikari,  Sæbjörn Jónsson trompetleikari og stjórnandi,  Jón Sigurðsson trompetleikari og stjórnandi.  Þá eru þrír þeir fyrstu heiðursfélagar í viðbót sem  eru allir látnir en þeir voru Karl O. Runólfsson tónskáld og stjórnandi, Hreiðar Ólafsson  baritonleikari og Sveinn Sigurðsson túbuleikari. Sæbjörn hætti störfum hjá Svaninum 1982. Enda kominn tími til að afhenda tónsprotann vini sínum og kollega Kjartani Óskarssyni klarinettuleikara og skila Svaninum í því besta formi sem hægt var að hafa hann. Kjartani hafði  spilað og unnið í Svaninum í mörg ár og þekkti af reynslu innviði Svansins enda hélt hann uppi merki og krafti Svansins á meðan hann var stjórnandi hans.

Líkur þessum kafla hér hjá Sæbirni.