Valgerður Valtýsdóttir og Sæbjörn Jónsson

Valgerður Valtýsdóttir og Sæbjörn Jónsson

Eiginkonan og fjölskyldan

Það er stundum sagt að bak við hvern mann sem nái langt sé vel gefin kona og það má með sanni segja í þessu tilfelli.

Hjónin ólust upp saman

Eiginkona Sæbjarnar heitir Valgerður Valtýsdóttir, og ólust þau upp saman í Stykkishólmi. Þau kynntust mjög ung, felldu hugi saman og varð fjögurra barna auðið sem öll eru orðin uppkomin.

Þau eru í aldursröð:
– Jón Aðalsteinn Bifvélavirki og vélstjóri.
– Valbjörn matreiðslumaður.
– Alma húsmóðir.
– Smári Valtýr matreiðslumaður.

Valgerður hefur staðið þétt við hlið eiginmanns síns í gegnum súrt og sætt.  Hún hefur sýnt áhugamálum hans mikinn áhuga í gegnum tíðina og gert honum kleift að njóta sín í starfi. Sæbjörn er meðvitaður um þá staðreynd að án hennar væri þetta einfaldlega ekki hægt, sem staðfestir að góð eiginkona er það dýrmætasta sem hægt er að öðlast í lífinu.

Sæbjörn Jónsson - Fjölskyldan

F.v. Jón Aðalsteinn Sæbjörnsson, Valgerður Valtýsdóttir, Smári Valtýr Sæbjörnsson, Sæbjörn Jónsson, Valbjörn Sæbjörnsson og Alma Sæbjörnsdóttir

Engir leikskólar eða dagmömmur í gamla daga

Á þeim tíma þegar Sæbjörn og Valgerður voru að ala upp börn sín, voru hvorki í boði leikskólar né dagmömmur. Valgerður var því heima hjá börnunum og Sæbjörn úti að vinna eins og algengt var á þeim tíma.  Valgerður naut sín í húsmóðurhlutverkinu og í hraða nútíma þjóðfélags verður börnum þeirra oft hugsað til þess hve gott þau höfðu það á uppvaxtarárunum.

Börn þeirra fjögur lærðu öll á hljóðfæri, þrjú á trompet og eitt á flautu. Þau spiluðu öll í Svaninum hjá Sæbirni á yngri árum. Strákarnir hættu svo smátt og smátt að spila þegar þeir fóru að stunda fullt nám, en Alma spilaði í mörg ár með Svaninum og Big-Bandi Svansins. Smári og Alma spiluðu bæði á trompet inn á fimmtíu ára afmælisplötu Svansins árið 1980.

Valgerður er úrvals söngkona

Valgerður söng með virtu tónskáldi í litlum en sérvöldum kór sem vann á vegum Útvarpsins. Honum varð að orði að ef Valgerður hefði farið í söngnám, hefðum við fengið úrvals söngkonu. Hún fór í prufu hjá Dr. Róberti A. Ottósyni hjá Fílharmóníukórnum sem var fljótur að taka hana í kórinn. Þar starfaði hún í ellefu ár með Róbert sem stjórnanda.

Róbert, þessi mikli tónlistarfrömuður, stjórnaði Sinfóníunni og Fílharmóníunni í flestum merkustu tónverkum Tónbókmenntanna. Þannig æxlaðist það að Sæbjörn og Valgerður voru saman á sviðinu í Háskólabíó í öllum þessum stórverkum.  Róbert nefndi við Sæbjörn eftir fyrstu tónleikana með Sinfóníunni að þau ættu örugglega eftir að vinna meira saman, og þar var hann sannspár. Róbert sagði stundum glettilega við Sæbjörn: “Mikið þakka ég þér fyrir að giftast konunni þinni og koma með hana í kórinn til mín”. Þetta var mjög skemmtilegur tími og merkilegur. Síðar var Sæbirni og Valgerði boðin þátttaka í tónleikaferð með Pólífónkórnum og Ingólfi Guðbrandssyni til Ítalíu. Sæbjörn þá í Kammersveitinni og Valgerður í kórnum. Hún kunni öll verkin vel sem flutt voru þar sem hún hafði sungið þau öll áður svo þetta var lítið mál fyrir hana þó fyrirvarinn væri stuttur.

Pólífónkórinn í tónleikaferð á Ítalíu

Pólífónkórinn í tónleikaferð á Ítalíu

Þessi þriggja vikna ferð var mjög skemmtileg þar sem margir tónleikar voru haldnir á frægum stöðum.

Sæbjörn og Valgerður eru þakklát Ingólfi fyrir að gefa þeim þetta tækifæri saman.