Sæbjörn Jónsson
Fæddur 19. október 1938
Dáinn 7. agúst 2006

Sæbjörn Jónsson fæddist þann 19. október 1938 að Vegamótum á Snæfellsnesi. Sæbjörn ólst upp í Stykkishólmi frá 3ja ára aldri og hóf þar nám í trompetleik 12 ára gamall hjá Víkingi Jóhannssyni.  Hann fluttist til Reykjavíkur árið 1959 og bjó þar til dauðadags.

Hann starfaði sem rafvirki og rafvélavirki á yngri árum og rak fyrirtækið Rafbraut sf. um árabil. Sæbjörn hóf nám í rafvirkjun árið 1955 hjá Haraldi Gíslasyni rafvirkjameistara og lauk sveinsprófi frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1959.

Árið 1960 til 1964 stundaði hann nám við Tónlistaskólann í Reykjavík hjá Jóni Sigurðssyni trompetleikara. Hann stundaði einnig nám í trompetleik hjá Harry Kvebæk í Noregi.  Lengst af eða í 37 ár hafði hann atvinnu sem hljómlistamaður og þá ýmist sem trompetleikari, kennari eða hljómsveitarstjóri.

Sæbjörn kenndi og stjórnaði hljómsveitum við Tónmenntaskóla Reykjavíkur í yfir 20 ár.  Hann stofnaði einnig Lúðrasveit Fíladelfíusafnaðarins og kenndi þar um um nokkurra ára skeið. Sæbjörn var fastráðinn trompetleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 1969 – 1998 og spilaði einnig í Íslensku óperunni og í Þjóðleikhúsinu. Hann var stjórnandi Lúðrasveitarinnar Svansins frá 1973 – 1982. Hann stofnaði Stórsveit Reykjavíkur 17. febrúar 1992 og var stjórnandi hennar til ársins 2002 en þá lét hann af störfum vegna veikinda. Eftir það sinnti hann nótnasafni Stórsveitarinnar.

Sæbjörn er eftir því sem best er vitað, eini einstaklingurinn sem hefur fæðst að Vegamótum.

Stykkishólmur

Tilurð þess að hús þetta var reist einmitt þar sem þjóðvegurinn frá Reykjavík skiptist inn til Stykkishólms og út til Ólafsvíkur, var að foreldrar hans settu þar á stofn veitingarekstur, sem er rekinn þarna ennþá með miklum ágætum.

Stykkishólmur

Æskuheimili

Vegamót á Snæfellsnesi

Samhliða þessum rekstri voru þau með gisti og veitingarekstur í Ólafsvík og þangað fór Sæbjörn á fyrsta ári því móðir hans sá um þann rekstur. Þegar hann var þriggja ára seldu þau reksturinn í Ólafsvík og keyptu gamla hótelið í Stykkishólmi ásamt samkomuhúsinu þar.

Bíó - Stykkishólmur

Bíó – Stykkishólmur

Það stækkaði faðir hans all verulega og stofnsetti BÍÓ í húsinu. Þessi fyrirtæki rak hann til dauðadags, en þá var hann búinn að selja  Vegamót nokkrum árum áður.  Þarna segir Sæbjörn að hafi orðið tímamót í lífi sínu þar sem örlögin gripu inn í og hann gerðist “Hólmari” og hefur verið það alla tíð og verður á meðan hann lifir.

Stærstu örlög Sæbjarnar réðust á þessu augnabliki

Grundvöllur að lífi Sæbjörns var lagður í Stykkishólmi.  Sæbjörn segir svo frá: “Eitt sinn er ég var 12 ára var ég að fíflast með vinum mínum niður á plani.  Þá var tekið létt í öxlina á mér og er ég leit upp sá ég glaðlegan og elskulegan mann sem sagði við mig: ”Heyrðu varst það ekki þú sem ætlar að koma til mín og læra á trompet?” Ég leit í þessi glaðlegu augu sem höfðu samt festu og ákveðni og þarna réðust mín stærstu örlög, því þarna stóð ég pjakkurinn fyrir framan  fyrsta og besta kennara minn á trompet sem lagði grunninn að öllum mínum ferli í tónlist og varð að mínu æfistarfi að allra mestu leiti.

Víkingur Jóhannsson átti heiður að öllu tónlistarlífi í Stykkishólmi. Hann var organisti í kirkjunni, hann stjórnaði og kenndi á öll hljóðfæri sem notuð eru í lúðrasveit og einnig var hann frábær harmonikkuleikari.  Ég veit að öll hans vinna,  að minnsta kosti við lúðrasveitina var í sjálfboðavinnu.  Hann vildi aldrei heyra minnst á peninga á meðan ég var í námi hjá honum”.

Egon kvintettinn stofnaður

Á meðan Sæbjörn var í Stykkishólmi starfaði hann auðvitað í lúðrasveitinni.  En árið 1955 stofnuðu hann og fjórir aðrir félagar úr lúðrasveitinni danshljómsveit sem hét Egon kvintett ( Egon er nafn á plánetu í sólkerfinu okkar ).  Þetta voru þeir – Bjarni – Gulli – Hinni – Birgir og Sæbjörn og seinna fengu þeir Birnu mjög góða söngkonu til liðs við sig.

Egon kvintettinn

Egon kvintettinn

Þessi hljómsveit starfaði til ársins 1959, en þá fluttu þau hjónin til Reykjavíkur, en hljómsveitin starfaði í mörg ár í breyttu formi eftir að Sæbjörn flutti.

Haraldur Gíslason lærifaðir

Sæbjörn átti einn læriföður enn í Stykkishólmi, en það var Haraldur Gíslason Rafvirkjameistari.  Hjá honum hóf Sæbjörn nám í rafvirkjun árið 1955 og vann hann í því námi til 1959 en þá fluttust þau hjónin eins áður sagði til Reykjavíkur þar sem Sæbjörn lauk náminu með sveinsprófi við Iðnskólann í Reykjavík.

Undirbúningur flutnings til Reykjavíkur

Verða nú mikil þáttaskil í lífi Sæbjarnar. Fyrst fór Sæbjörn einn til að taka sveinsprófið,  fá vinnu og húsnæði, allt gekk vel með prófið og vinnu var hægt að fá, en með húsnæði til leigu var þyngri þrautin. Allt leiguhúsnæði krafðist  fyrirframgreiðslu með peningum í eitt til tvö ár, og það átti fátækur rafvirkjasveinn ekki . Góður kunningi Sæbjarnar á Selfossi kom honum í vinnu þar, en það var við frágang á hinu nýja mjólkurbúi sem var verið að taka í notkun. Þar fylgdi herbergi til leigu, bara með mánaðar greiðslu. Þarna vann Sæbjörn í nokkra mánuði við tengingar á mjög flóknum fjarstýrikerfum, því þetta var og er áreiðanlega ennþá mjög fullkomið mjólkurbú.

Þessi vinna var mjög lærdómsrík og jók sjálfstraustið, en sama sagan endurtók sig því enga íbúð var að fá. En eftir að Sæbjörn hafði unnið þarna í nokkra mánuði, gripu örlögin inní eins og svo oft á hans lífsferli. Góður kunningi og frændi hringdi í Sæbjörn og sagði að kannski gæti hann útvegað Sæbirni góða vinnu í Reykjavík, en hann var skrifvélavirki og vann hjá mjög góðu fyrirtæki Skrifstofuvélum sem voru á Laugavegi 11, en það fyrirtæki hafði umboð á Íslandi fyrir IBM. sem Sæbjörn telur að flestir kannist við.

Þú ert ekki frændi minn fyrir ekki neitt

Rafeindatækni var farin að ryðja sér til rúms um allan heim og byrjað að framleiða tölvur og margt fleira t.a.m. fjarstýrð klukkukerfi fyrir stærri fyrirtæki eins og  sjúkrahús, skóla, banka, fiskvinnsluhús ofl. Svo voru sérstök kerfi fyrir banka sem voru vaktmannskerfi, læsa og opna hurðir fyrir fjárhirslur og sér búnaður af þessu tagi. Þetta vissi vinur Sæbjarnar að ætti að byrja að flytja inn fljótlega og þess vegna þurfti hann mann í þetta verk til að koma þessum hlutum fyrir og kunna á þetta allt saman. Sæbjörn sagði við vin sinn að þessir hlutir væru of flóknir fyrir hann, en hann svaraði um hæl “…hví skyldir þú ekki geta sett þig inn í þetta eins og hver annar, þú ert ekki frændi minn fyrir ekki neitt. Ég sendi inn umsókn fyrir þig”.

Þá var eigandi og forstjóri Skrifstofuvéla, ásamt að vera umboðsmaður I.B.M. á Íslandi mikill heiðursmaður og góðmenni Ottó A. Michelsen en hann var  líka ákveðinn og bað um kunnáttu og hæfni til sinna starfsmanna. Enda heldur Sæbjörn að hann hafi haft þá bestu menn í vinnu sem til voru á þessu sviði. Hann var nákvæmur og til fyrirmyndar fyrir starfsmenn sína, var alltaf almennilegur við sína menn. Þarna fóru hlutirnir að ganga hratt og nokkrum dögum seinna var hringt í Sæbjörn og hann beðin að mæta til viðtals. Þegar Sæbjörn mætti á staðinn voru þar Ottó, og frændi Sæbjarnar ásamt tveimur öðrum starfsmönnum. Þegar Sæbjörn hafði heilsað og kynnt sig þá tók við spjall aðalega um hvaðan hann kæmi og við hvað hann hefði verið að vinna í náminu. Sæbjörn svaraði um hæl “….ég vann við viðgerðir allt frá straubolta  upp í togara ásamt að vera í raflögnum”. Þá sagði Ottó, “þetta er maður að mínu skapi, þú ert ráðinn. Farðu austur til að ganga frá þínum málum, síðan ferðu heim til þín og undirbýrð flutning suður. Svo hringir þú í mig, og þá leysum við restina”.

Ottó sagði Sæbirni löngu seinna að þeir hefðu útbúið sérstök eyðublöð til að sækja um starfið og auglýst það. Umsóknir urðu 42, en lítið blað þvældist alltaf með í bunkanum sem innihélt lýsingu á manni nýútskrifuðum sem rafvirka. Enginn vissi neitt um manninn nema frændi Sæbjarnar sem hafði sett stafina sína á blaðið.  Þegar búið var að fara yfir allar umsóknirnar aftur og aftur, þá sagði Ottó “….en hvað með þennan miða?” Þá var kallað á frænda Sæbjarnar sem vann á verkstæðinu og hann spurður hver þessi maður væri. Hann svaraði ákveðinn “….það stendur á miðanum og ef þið viljið duglegan og góðan mann í starfið þá er þetta hann”.  Þegar Sæbjörn kom í viðtalið þá var Ottó þegar búinn að gera upp hug sinn. Hann var þeirrar skoðunar að menn utan að landi sem hafa alltaf orðið að bjarga sér sjálfir væru réttu mennirnir.

Stóra klukkan á lyftuturni Útvegsbankans á torginu

Sæbjörn var mjög ánægður með klukkuna stóru sem stóð uppi á lyftuturni Útvegsbankans á torginu og snérist á möndli sínum. Hún var upplýst neonljósum og sýndi öllum hvað klukkan var. Til að koma undirstöðum og möndli (öxli) upp á turninn þurfti stærsta kranann hjá Eimskip því samsetningin þurfti að fara fram uppi á turninum sjálfum og eins gott að vera ekki lofthræddur. Þessi stærsta klukka landsins var samansett eitt og hálft tonn að þyngd. Hún var tveir og hálfur meter að þvermáli og áttatíu sentimetrar að breidd.

Stóra klukkan á lyftuturni Útvegsbankans á torginu

Henni var stýrt að öllu leiti frá kerfinu sem Sæbjörn setti upp í bankanum á vegum Skrifstofuvéla, en það tók hann rúma viku að setja búnaðinn saman. Margir spurðu Sæbjörn hvernig væri hægt að koma rafmagni í klukkuna sem snérist endalaust og hann svaraði því alltaf til að það væri leyndarmál bankans. Sæbjörn setti klukkuna í gang fullbúna þann 25 júlí 1959 kl 14.00. En  um svipað leyti fæddist næst elsti sonur hans á fæðingadeildinni svo þau áttu sama afmælisdag. Ekki er ljóst hvenær klukkan var tekin niður, en hún þjónaði landsmönnum örugglega í ein 30 ár.

Sæbjörn vann í sjö ár hjá Skrifstofuvélum, en eftir það stofnaði hann sitt eigið  fyrirtæki sem var nefnt Rafbraut. Þetta var rafvélaverkstæði sem annaðist viðgerðir á öllum stærðum og gerðum  af rafmótorum. Sæbjörn hafði kynnst litlu mótorunum í rit og reiknivélunum, hrærivélum, handverkfærum o.s.frv. en þessa mótora var ekki hægt að gera við hér á landi heldur varð að skipta um þá í heilu lagi.

Rafbraut keypti vélar og tæki til að vinda upp mótora og skap-aði með því mikla vinnu fyrir starfsmenn sína. Innflutningur á þessum litlu en dýru mótorum hætti nánast alveg. Rafbraut hafði viðgerðar umboð  fyrir Zanussi þvottavélar ásamt umboði fyrir Indesitt og Hoover. Rafbraut vann allt sem þurfti með rafmótora hjá Kassagerðinni og einnig fyrir trésmiðjuna Víði, og allt fyrir ritsímadeild Landssímans bæði hér í Reykjavík og á Keflavíkur flugvelli ásamt Gufunesstöðinni og fl. Þrír viðgerðarbílar sér útbúnir fyrir viðgerðir á þvotta-vélum, voru gerðir út á stór Reykjavíkursvæðinu. Sæbjörn útskrifaði 4 nema í Rafvéla-virkjun og sat nokkur ár í sveinsprófsnefnd Rafvélavirkja.  Reynsla Sæbjarnar frá fyrri vinnustöðum kom sér vel í fyrirtækjarekstrinum sem var ansi strembinn. En allt tekur enda og Sæbjörn hætti með Rafbraut 1973/1974 og aðrir tóku við rekstrinum.

Alla tíð frá 1960 stundaði Sæbjörn tónlist. Fyrst í námi og síðan sem atvinnumaður.